Fara á efnissvæði
Aftur í fréttayfirlit

Fyrsti ársfundur Nordiska Handelskommittén

Velheppnaður fundur Nordiska Handelskommittén

Fyrsti fundur Nordiska Handelskommittén fór fram í Helsinki 28. - 29. júní, en Nordiska Handelskommittén varð til við samruna tveggja Norræna samstarfsaðila, Nordisk Samarbejdskommite og Nordisk Handel. En Nordisk Samarbejdskommite átti sér ríflega 100 ára sögu af samvinnu og samstarfi samtaka launafólks á Norðurlöndunum. Fulltrúar Íslands á fundinum voru þau Sigmundur Halldórsson, starfsmaður LÍV, Eiður Stefánsson, FVSA og Ástríður S. Valbjörnsdóttir, fyrrv. starfsmaður LÍV.

Þessum fundi mátti skipta í tvennt, þar sem fyrri dagurinn var fundur samtaka launafólks eingöngu og þeirra gesta, en líkt og hefð er fyrir, þá er boðið til fundar félögum sem lokið hafa störfum, en síðari daginn taka fulltrúar atvinnurekanda líka þátt og voru í allt 31 fulltrúi á fundinum.

Að venju höfðu fundargestir komið saman til óformlegs fundar á kvöldverði sem boðið var til 27. júní þar sem fundargestir hittust í fyrsta skipti. Óhætt er að segja að Helsinki hafi tekið á móti okkur með glampandi sól og hita og ekki laust við að okkur sem lögðum af stað í 7 gráðum þætti 30 gráður svona í heitari kantinum.
Það var rifjað upp á fundinum þann 28. júní að sameiginlegir fundir Norðurlanda hefðu á árum áður tekið heila viku og það væri því verið að stytta þann tíma verulega með því að láta þennan fund standa í 3 daga, ef kvöldverðurinn fyrsta daginn væri talinn með. En mikil áhugi er á því að nýta áfram fjarfundarbúnað til þess að draga úr ferðalögum. Það hafði verið ákveðið að á þessum fundum yrði boðið upp á túlkun og það reyndist mjög vel og var gott fyrir okkur fulltrúa Íslands að geta tjáð okkur á móðurmálinu á fundinum.

Farið var yfir helstu fundi sem eru fram undan og fyrir liggur að það verður fundur UNI Global í Atlanta þann 6. desember og Norrænufélögin vilja undirbúa sig vel fyrir þann fund og er hugmyndin sú að lengja dvölina í Atlanta þannig að félögin komi saman áður en UNI fundurinn hefst og jafnframt á að ræða IKEA og Costco, auk þeirra aðila sem starfa á Norðurlöndum eins og t.d. Amazon. Það var alveg ljóst að áhugi er á reynslu okkar á Íslandi af Costco og hvaða lærdóm megi draga af henni. 

Farið var yfir fjárhagsáætlun NHK og sömuleiðis rætt um framlagða framkvæmdaáætlun. Fram kom að nokkuð óljóst væri um fjárhag og fjárþörf, þar sem þetta er fyrsta starfsár NHK, auk þess sem standa þarf skil á starfsmannakostnaði, auk annara útgjalda. NHK fékk hins vegar í sinn hlut þó nokkurn sjóð og það var mál fulltrúa að það ætti ekki að vera hlutverk NHK að safna sjóðum.

Í kjölfarið á þessum fundarliðum var farið yfir stöðuna í hverju landi og var byrjað á gestgjöfunum í Finnlandi. Það má segja að tóninn hafi verið sleginn, því öll löndin nefndu verðbólgu, heimfaraldur og stríðið í Úkraínu sem áhrifavalda á stöðuna í hverju landi. Allir tóku undir það mat að staða framlínufólks sem hafi þurft að sinna störfum sínum á Covid tímum hafi verið afar erfið og það þurfi að sækja sérstakar kjarabætur fyrir hönd þessara hópa. Þetta getur verið snúið, því vinnumarkaðskerfi Norðurlanda byggja á grunni sem þarf þá að endurskoða, ef veita á þessum hópum sérstaka umbun. Allir ræddu um að vinnumarkaðurinn væri nú að verða þannig að það skorti starfsfólk í þessum löndum. En það kom m.a. fram í máli fulltrúa HK Handel í Danmörku að þar væri þetta nokkuð snúið. Bæði væri stór hluti starfsfólks ungur, væri í hlutastörfum og liti hreinlega svo á að það væri ekki í framtíðarstarfi sínu. Þetta gerði þeim erfiðara fyrir og ekki síður „zero hour contracts“ sem væru algjör samfélagslegt mein. Við ræddum um þetta við þau að loknum fundi og þau lögðu á það mikla áherslu að allt ætti að gera til þess að komast hjá því að þetta samningform væri viðurkennt á Íslandi. En ef til þess kæmi að við yrðum tilneydd – þá væri mikilvægt að skilgreina í samningum hversu hátt hlutfall starfsmanna mætti vera á slíkum samningum. Að öðrum kosti gætu fyrirtæki farið að ýta öllu sínu fólki inn í þessa samninga og það ættum við að berjast gegn. Verðbólga, hækkandi vextir og hækkandi eldsneytisverð er auk þess öllum ofarlega í huga. Öll félögin vilja halda í þann kaupmátt sem þau hafa náð fyrir sína félaga og það getur orðið mjög áhugavert fyrir okkur að bera saman það sem gerist í Finnland og Noregi við okkur hér. Fundargestir hafa líka töluverðar áhyggjur af stjórnmálaþróun og uppgangi öfga- og haturshópa.

Danmörk - HK Handel

Finnland - PAM

Noregur - HK Norge

Svíþjóð - Handels

Svíþjóð - Unionen

Á fundinum þann 29. júní bættust við fulltrúar atvinnurekenda. Elina Narvanen við Tampere Háskóla í Finnlandi kynnti rannsókn sem gerð hefur verið á Norðurlöndum um áhrif af tæknibreytingum og þá sérstaklega hvernig þær eru að hafa áhrif á verslun. Mjög áhugavert erindi og Elina hvatti okkur til þess að sjá þetta fremur sem tækifæri, en ógn. Það kom fram í fyrirspurnum að í Danmörku eru vinnuveitendur í töluverðum vandræðum með að ráða til sín fólk sem býr yfir þeirri þekkingu sem þarf til að sinna sölu og markaðsstörfum. Allir eru sammála um að störf eru að breytast, en það muni ekki endilega þýða fækkun á starfsfólki, en ljóst sé að mikla áherslu þurfi að leggja á endur þjálfun/endurmenntun starfsfólks. Við sáum mjög gott dæmi um slíkt frá Noregi þar sem Coop vöruhúsið í Noregi ákvað að endurþjálfa sitt starfsfólk, fremur en að ráða inn nýtt starfsfólk og að niðurstaðan hafi verið framúrskarandi. Bæði hafi tekist að halda í þekkingu sem starfsfólkið bjó yfir og þetta hafi líka orðið starfsfólki tækifæri til þess að bæta við sig og vaxa í starfi. Öll eiga Norðurlöndin það sameiginlegt að þar er þjálfun og endurmenntun unnin í ágætu samstarfi hreyfinga launafólks og atvinnurekanda. Það er þó ljóst að þetta verkefni er flókið og fyrir því liggja ýmsar ástæður. Bæði þarf að tryggja framboð á menntun sem hentar og eins að tryggja að launafólk hafi tækifæri til þróunar í starfi og geti aflað sér nýrrar þekkingar samhliða starfi sínu.

Kynning Elina Narvanen - Employment and skills needs in the digital and green transition of the Nordic retail industry