Fara á efnissvæði

Um LÍV

LÍV var stofnað 2. júní 1957.  Í því eru 10 verslunarmannafélög og deildir verslunarmanna víðsvegar á landinu með um 38.000 fullgilda félagsmenn. Tilgangur sambandsins er að efla samtök skrifstofu- og verslunarfólks, vera málsvari þeirra og hafa á hendi forystu í hagsmunamálum þeirra. 

Skrifstofa LÍV veitir félögunum almenna þjónustu vegna kjarasamninga og skyldra mála. Ennfremur starfar LÍV að starfsmenntun verslunarfólks og hefur haft á hendi kjarasamningagerð fyrir aðildarfélögin önnur en VR.

LÍV er aðili að:

ASÍ - www.asi.is
Alþýðusamband Íslands og er annað stærsta landssambandið innan ASÍ. ASÍ sem stofnað var 1916, er stærsta fjöldahreyfing launafólks í landinu. Aðild að ASÍ eiga 7 landssambönd stéttarfélaga með u.þ.b. 70 þúsund félagsmenn.

NS, Nordisk Samarbejdskomité
LÍV gerðist aðili að Norrænu samstarfsnefndinni árið 1960. Tilgangur samtakanna er að efla samvinnu milli verslunarmannasamtakanna og styrkja þau í baráttunni fyrir bættum kjörum og réttindum.

UNI - www.union-network.org
Á þingi FIET, alþjóðasamband verslunarmanna, árið 1999 var samþykkt að sameinast þremur öðrum alþjóðasamböndum og mynda nýtt alþjóðasamband - UNI. FIET, sem var stofnað 1904, var langstærst þessara sambanda og hafði þá 10 milljónir félagsmanna innan sinna vébanda.

Samböndin, sem það sameinaðist voru:

CI - Communications International (Alþjóðasamband starfsfólks við samskiptatækni), sem var stofnað 1911 og var með 4.5 milljónir félagsmanna.

IGF - International Graphical Federation (Alþjóðasamband starfsfólks við prentverk og grafíska hönnun), sem var stofnað 1896 og var með um 1 milljón félagsmanna.

MEI - Media and Entertainment International (Alþjóðasamband starfsfólks við fjölmiðlun og í skemmtanaiðnaðinum), sem var stofnað 1965 og var með 200.000 félagsmenn.

Union Network International (UNI)

Hið nýja samband, sem heitir Union Network International (UNI), tók til starfa í ársbyrjun árið 2000 og það er málsvari 15,5 milljónir félagsmanna í 900 landssamböndum/landsfélögum í 140 löndum.

Skrifstofur UNI eru í Nyon í nágrenni Genfar og þar hefur verið byggt nýtt hús yfir starfsemina. Byggingin hefur gengið nærri fjárhag sambandsins og hefur verið leitað eftir stuðningi frá aðildarsamböndunum.

UNI skiptist eftir landssvæðum (regions) í:

 • UNI-Africa (Afríka)
 • UNI-Americas (Norður og Suður Ameríka)
 • UNI-Asia and Pacific (Asía og Kyrrahaf)
 • UNI-Europa (Evrópa)

Það skiptist einnig eftir starfsgreinum í geira (sectors):

 • UNI Commerce (verslunar) – stærsti geirinn með u.þ.b. 5 milljónir félagsmanna
 • UNI Electricity (rafmagns)
 • UNI Finance (fjármála)
 • UNI Graphical (grafíska)
 • UNI Hair & Beauty (hár og snyrti)
 • UNI IBITS -Industry, business, services and IT (hvítflibbar í iðnaði, viðskiptum, þjónustu og upplýsinga- og tækniiðnaði
 • UNI Media, Entertainment and Arts (fjölmiðlar, skemmtanaiðnaður og listir)
 • UNI Postal (póstur)
 • UNI Property Services (fasteignaþjónusta)
 • UNI Social Insurance & Private Health Care (almannatryggingar og heilsugæsla á almennum markaði
 • UNI Telecommunications (sími)
 • UNI Tourism (ferðaþjónusta).

Auk þessa eru skipulagðir þrír hópar, sem ganga þvert á starfsgreinaskiptinguna en það eru (Interprofessional groups):

 • UNI Women (konur)
 • UNI Youth (ungliðar)
 • UNI Professional & Managerial (sérfræðingar og stjórnunarstarfsfólk).