Fara á efnissvæði
Aftur í fréttayfirlit

Sérfræðingur frá NHK kynnti sér íslenskan vinnumarkað

Sérfræðingur frá NHK kynnti sér íslenskan vinnumarkað

Anette Anderson, nýr verkefnastjóri (e. policy officer) hjá Nordiska Handelskommitten (NHK) heimsótti skrifstofur LÍV og VR í vikunni en heimsóknin er hluti af ferð hennar til allra Norðurlandanna til þess að kynna sér vinnumarkað og aðstæður á hverjum stað. Markmiðið er að átta sig betur á því hvaða samstarfsfletir eru á milli samtaka verslunarfólks á Norðurlöndunum, auka á tengslin og mögulega dýpka þau þar sem við á. Undanfarna viku hefur Anette dvalið á Íslandi og var dagskráin þétt á meðan dvöl hennar stóð.

Á fyrsta degi hitti hún Ragnar Þór Ingólfsson, formann LÍV og VR, sem gaf henni innsýn í sögu og starf VR og LÍV og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir varðandi lífskjör félagsfólks VR og komandi kjarasamninga. Anette hitti einnig Bryndísi Guðnadóttur, sviðsstjóra kjaramálasviðs VR, sem fræddi hana um helstu atriði í kjarasamningum okkar og gaf henni yfirsýn yfir þá sjóði og þjónustu sem VR veitir. Þá ræddi Anette einnig við Selmu Kristjánsdóttur, Signýju Aðalsteinsdóttur og Sólveigu Lilju Snæbjörnsdóttur, sérfræðinga hjá VR, sem kynntu fyrir henni starfsmenntamál félagsins.

Heimsókn Anette var ekki einungis bundin við höfuðborgarsvæðið en hún heimsótti einnig skrifstofur VR á Selfossi til þess að fá innsýn inn í starfsemi félagsins á landsbyggðinni. Gils Einarsson, formaður deildar VR á Suðurlandi, gerði þar grein fyrir því starfi sem VR heldur úti á svæðinu og þær áskoranir sem tengjast við að starfa í strjálbýlu landi. Þá heimsótti Anette Alþýðusamband Íslands þar sem Magnús Norðdahl, lögfræðingur ASÍ og einn helsti sérfræðingur hérlendis í alþjóðlegu samstarfi verkalýðsfélaga, veitti henni innsýn inn í sögu og starf ASÍ. Magnús gerði einnig grein fyrir því hvað aðskilur Ísland frá Norðurlöndunum og skapar íslenskum vinnumarkaði sína sérstöðu. Anette heimsótti einnig Samtök verslunar og þjónustu og hitti þar Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, sem kynnti helstu áherslur samtakanna.

NHK er samstarfsvettvangur samtaka verslunarfólks á Norðurlöndunum með aðsetur í Stokkhólmi. NHK varð til við sameiningu tveggja eldri samstarfsvettvanga verslunarfólks á Norðurlöndunum.