Fara á efnissvæði
Aftur í fréttayfirlit

Atvinnurekandi ber ábyrgð á færni starfsfólks

Að þróa færni í starfi skiptir miklu máli og mörg okkar gera það að eigin frumkvæði. Stunda nám alla ævi. Í Svíþjóð hefur nú náðst samkomulag milli Union og Svenskt Näringsliv um aðlögunarnámsstuðning sem á að veita launafólki aukið frelsi til þess að velja og móta möguleika sína á atvinnumarkaði. En atvinnurekendur bera áfram ríka ábyrgð á að þróa færni starfsmanna sinna.

Martin Linder, formaður Unionen, kynnir þetta nýja samkomulag á vef Unionen og segir m.a. í lauslegri þýðingu:

"Unionen hefur um langt árabil lagt mikla áherslu á hæfnismál. Það gerum við vegna þess að atvinnulífið gerir miklar kröfur til launafólks varðandi færni og aðlögun að nýjum kröfum. Jafnvel þau sem hafa nú þegar vinnu gætu þurft að bæta við sig nýrri menntun - því atvinnuöryggi í dag snýst að miklu leyti um að hafa rétta hæfni fyrir starfið sem þú hefur, eða fyrir starfið sem þú vilt. Kannski þarf því að uppfæra færnina nokkrum sinnum á starfsævi. Það hefur hins vegar verið gríðarleg áskorun fyrir okkar félagsfólk að standa undir þeim kostnaði sem fylgir því að leggja í endurmenntun á miðri starfsævinni.

Því höfum við barist fyrir því að ná samningi sem tryggir atvinnuöryggi okkar fólks betur þegar farið er í nám og það er því mikilvægur sigur að nú hefur tekið gildi samningur við Svenskt Näringsliv sem þýðir að nú er til "stuðningur við umbreytingarnám" fyrir þá sem vilja bæta við þekkingu sína og færni, en ekki fórna starfinu fyrir námið. Með þessu samkomulagi gefst launafólki tækifæri til að stunda nám í allt að eitt ár og halda á meðan allt að 80 prósentum af launum sínum. Þökk sé þessu samkomulagi munu því mun fleiri geta stigið skrefið og sótt þá menntun sem þau hafa lengi viljað sækja sér."

Frekari upplýsingar á sænsku