Fara á efnissvæði
Aftur í fréttayfirlit

Stéttarfélög sjaldan jafn mikilvæg

Stéttarfélög sjaldan jafn mikilvæg og eftir heimsfaraldurinn

Í desember síðastliðnum var haldin alþjóðleg ráðstefna á vegum UNI Commerce sem bar yfirskriftina „Commerce Workers Rise! A Global Movement For Our Time“. Nokkur hundruð fulltrúar verslunarfélaga frá 30 löndum komu þar saman, þar á meðal fulltrúar frá Landssambandi íslenzkra verslunarmanna. LÍV á beina aðild að UNI Commerce og vinnur í þéttu samstarfi með öðrum Norðurlandaþjóðum á þessum vettvangi. Norðurlöndin hafa mjög sterka rödd innan alþjóðahreyfingarinnar í krafti samstöðu sinnar og samstarfs.
Á ráðstefnunni voru flutt fjölmörg erindi sem vörðuðu aðgerðaráætlun samtakanna fyrir 2022 til 2026 sem lögð var fyrir og samþykkt á þinginu. Aðgerðaráætlunin er í fimm köflum sem hver og einn ber yfirskrift sem endurspeglar innihaldið:

  1. Uppbygging samtaka verslunarfólks og aukin áhrif þeirra.
  2.  Netverslun er verslun.
  3. Heilsa og öryggi verslunarfólks.
  4. Áhersla á réttlæti við stafræna umbreytingu og viðbrögð í umhverfismálum.
  5. Aukin áhrif stéttarfélaga í allri virðiskeðju í verslun (aðföng, framleiðsla, flutningur og sala) til að stuðla að félagslegri og umhverfislegri sjálfbærni.

Það var upplýsandi fyrir fulltrúa LÍV að heyra af aðstæðum verslunarfólks sem oft þurfa að berjast fyrir jafn einföldum og sjálfsögðum mannréttindum eins og þeim að geta stofnað stéttarfélög. Raunar kom skýrt fram að eitt helsta verkefni UNI Commerce sé að styðja við bakið á verslunarfólki í þeim löndum þar sem þessi réttindi eru mun minni en við eigum að venjast. Það er virkileg áminning um mikilvægi þess að verja íslenska vinnumarkaðsmódelið að heyra af því að samherjar okkar á Norðurlöndunum, sem stutt hafa við bakið á verslunarfólki sem starfar í verslunum sem við þekkjum hér á landi, hafa þurft að sæta því að vera handtekin þegar þau reyndu að heimsækja vinnustaði þessara fyrirtækja í Bandaríkjunum til þess að kynna sér aðstæður launafólks.

Mynd af fulltrúum stéttarfélaga á ráðstefnunni

Það er með ólíkindum að heyra frásagnir af því hvernig fyrirtæki á borð við Amazon koma fram við starfsfólk sitt eins og Jennifer Bates, sem barist hefur fyrir því að koma á fót stéttarfélögum hjá Amazon, hefur sagt. Fyrirtækið bókstaflega þrælar út fólki til þess að það hætti störfum nógu snemma svo að það njóti aldrei þess ávinnings sem hærri starfsaldur gæti fært því. Á sama tíma lét Jeff Bezos sig ekki muna um það að láta skjóta sér út í geim, en hann er sem kunnugt er forstjóri Amazon og einn allra ríkasti maður heims. Sömu sögu má raunar segja af fyrirtækjum á borð við Starbucks sem lét sig ekki muna um að segja upp rúmlega 350 starfskröftum sem óskað höfðu eftir því að ganga í stéttarfélag á árinu 2022, en kvarta svo sáran yfir því að erfitt sé að fá starfsfólk til vinnu á sama tíma!

Heyra má enduróm af þessari þróun í Evrópu. Fulltrúar bæði fransks og þýsk verslunarfólks sögðu frá því á ráðstefnunni að þær breytingar sem urðu vegna Covid faraldursins hafi haft veruleg neikvæð áhrif. Þannig hafi til dæmis starfsöryggi minnkað vegna hnignunar hefðbundinnar verslunar. Í Frakklandi gilda lög sem kveða á um að í fyrirtækjum þar sem starfa færri en 12 sé ekki þörf á því að fara eftir kjarasamningum. Þetta nýttu fyrirtæki sér í faraldrinum með því að breyta afhendingu á vörum. Í stað þess að sækja þær í verslun voru þær afhentar af sendlum – en sendlarnir voru hins vegar allir „verktakar“ sem báru alla ábyrgð á að sjá sér fyrir sínum eigin búnaði, sjúkratryggingum og þess háttar. Í Þýskalandi hefur samdráttur orðið til þess að verslunum hefur verið lokað og hefðbundnum verslunarstörfum því fækkað. Á sama tíma er starfsfólki í netverslunum að fjölga. Systurfélög okkar á Norðurlöndunum hafa einmitt unnið að því að taka á þessum breytingum og að starfsfólk í netverslun, sem margt vinnur í vöruhúsum og við afgreiðslu sem fer fram með öðrum hætti en í hefðbundnum verslunum, átti sig á mikilvægi þess að vera í stéttarfélögum.

Mikilvægi stéttarfélaga kom enda skýrt fram í erindi sem David Young frá UFCW International í New York flutti. Á meðan hin svokallaða „stafræna umbreyting“ er að breyta eðli starfa hefur leið launafólks til þess að bæta kjör sín ekkert breyst. David sagði frá því að í New York hefði orðið til fyrirtæki sem eingöngu væri í netviðskiptum. Fyrirtækið hafi stækkað hægt og rólega vegna þess að þar hafði tekist að uppfylla óskir viðskiptavina um góða vöru, góða þjónustu og sanngjarnt verð. Ásama tíma hafi þau hjá UFCW International séð til þess að stéttarfélag væri í fyrirtækinu. Fyrir nokkrum árum hafði komið til verkfalls og í krafti samstöðu launafólks náðist góður samningur. Nokkru síðar bárust fregnir af því að fyrirtækið myndi sameinast öðru með yfirtöku. UFCW reyndi að ná tali af þeim sem ætluðu sér að fjárfesta til þess að tryggja samninga og stöðu síns fólks, en fengu ekki áheyrn fyrr en tveimur vikum eftir yfirtökuna. Nýir eigendur voru fljótir að tryggja sér frið og gengu til samninga við UFCW. David undirstrikaði það við þann sem þetta skrifar að verkföll eru öflugasta vopn okkar, því með samstöðu í verkfalli komi berlega í ljós hvernig verðmæti verði til í fyrirtækjum, sem er fyrst og fremst með framlagi þess fólks sem þar starfar.

UNI Commerce hefur lagt mikla áherslu á að tryggja beri öryggi launafólks í störfum sínum og þarna fengum við góða kynningu á helstu verkefnum sem stéttarfélög innan UNI hafa staðið fyrir. UNI hefur m.a. opnað sérstakt vefsvæði til þess að berjast gegn ofbeldi sem beinist gegn verslunarfólki, en það er vaxandi vandamál víða. Fulltrúar frá Japan, Ástralíu og Finnlandi kynntu mjög áhugaverð verkefni sem farið hefur verið í. Verkefnin voru unnin í góðu samstarfi stéttarfélaga, stjórnvalda og atvinnurekenda og var nefnt að í mörgum tilfellum hefði fyrsta skrefið hreinlega verið að fá viðurkenningu á vandamálinu. Áreiti og ofbeldi í verslunum er vaxandi vandamál að mati UNI og heimsfaraldurinn ýtti undir neikvæða þróun á þessu sviði. Annað verkefni sem þykir sérlega vel heppnað snýr að öryggi og aðbúnaði á vinnustöðum, en í kjölfar skelfilegra atburða í Bangladesh varð til alþjóðasamningur varðandi eldvarnir og byggingar í Bangladesh sem fjölþjóðleg fyrirtæki á borð við H&M, Lindex, Inditex og Primark eru aðilar að. Ekkert íslenskt fyrirtæki er enn aðili að samkomulaginu. Sambærilegt samkomuleg tók gildi fyrir Pakistan undir lok síðasta árs. Þetta eru dæmi um hvernig samtakamáttur okkar hefur sannarlega áhrif og alþjóðlegt samstarf þar sem stéttarfélög hafa komið beint að því að þrýsta á um jákvæða þróun.

Ráðstefnur á borð við þessa eru mikilvægar til þess að efla tengsl okkar við systurfélög okkar og læra af því sem vel er gert. Þær eru jafnframt mikilvæg áminning um hversu mikil verðmæti felast skipulagi mála hér á landi, þar sem það þykir sjálfsagt að launafólk sé í stéttarfélagi, öryggi á vinnustöðum er tryggt í lögum og öflugu eftirlitskerfi og það þykir sjálfsögð mannréttindi að launafólk geti lagt niður vinnu til þess að knýja fram kjarasamning. Ekkert af þessu er sjálfsagt og um þetta verðum við að standa vörð.