Fara á efnissvæði
Aftur í fréttayfirlit

Sparnaðartillögur á kostnað atvinnulausra

Sparnaðartillögur á kostnað atvinnulausra

Ríkisstjórnin hyggst stytta bótatímabil atvinnuleysistrygginga úr 30 mánuðum í 18 mánuði og herða ávinnsluskilyrði. Áætlað er að skerðingin skili sex milljörðum króna í sparnað á ári.

Forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar benda á að atvinnuþátttaka sé þegar með því mesta innan OECD og atvinnuleysi lágt. Engin knýjandi þörf sé því á að draga úr réttindum launafólks. Þvert á móti þurfi að efla úrræði sem styðja fólk í atvinnuleit, ekki veikja afkomuöryggi þeirra sem lenda í atvinnuleysi.

Breytingarnar eru sagðar sparnaðartillögur í dulargervi, teknar einhliða án samráðs við aðila vinnumarkaðarins. Verkefnið sem áður var unnið í sameiningu með fulltrúum launafólks og atvinnurekenda er lagt til hliðar.

ASÍ og BSRB fordæma þessi áform og lýsa yfir að verkalýðshreyfingin muni ekki sitja hjá þegar grundvallarréttindi launafólks eru skert.

Heimild: Vinnan