Samkeppnishæfni á kostnað réttinda launafólks?
15. desember 2025Nýr gagnapakki ESB um gervigreind: Samkeppnishæfni á kostnað réttinda launafólks?
Evrópusambandið hefur kynnt svokallaðan Stafrænan Omnibus-pakka, sem ætlað er að einfalda regluverk um gögn og gervigreind í nafni nýsköpunar og samkeppnishæfni. Þótt markmiðið sé kynnt sem tæknilegt og hlutlaust, benda gagnrýnisraddir til þess að breytingarnar geti haft veruleg neikvæð áhrif á réttindi launafólks, einkum á vinnustöðum þar sem gervigreind og reiknirit eru notuð við eftirlit, skipulag vinnu og mannauðsstjórnun.
Í greiningu Aidu Ponce Del Castillo hjá ETUI er varað við því að pakkinn feli í sér afregluvæðingu í dulargervi nýsköpunar, þar sem vernd persónuupplýsinga, gagnsæi og aðkoma starfsfólks veikist, á sama tíma og stór tæknifyrirtæki – einkum utan Evrópu – styrkja stöðu sína. Fyrir verkalýðshreyfinguna er ljóst að slík þróun kallar á árvekni og skýra afstöðu til að tryggja að tækniframfarir verði ekki nýttar til að grafa undan kjörum, réttindum og öryggi launafólks.
Pakkinn sameinar reglur ESB um gögn í eina gagnalöggjöf (Data Act), dregur úr vernd í persónuverndarlöggjöfinni (GDPR), gervigreindarlögunum (AI Act) og tengdum reglum, og setur fram nýja gagnastefnu ESB. Undirbúningurinn er veikur: engin haldbær áhrifagreining eða áhættumat liggur fyrir. Þrátt fyrir að fræðimenn og mannréttindasamtök bendi á að hér sé um grundvallarbreytingu á réttarkerfi ESB að ræða, hefur engin kerfisbundin greining farið fram á áhrifum á starfsfólk og aðra viðkvæma hópa.
Þrátt fyrir loforð um betri samkeppnishæfni er ólíklegt að ávinningurinn skili sér til evrópskra starfsmanna. Í staðinn styrkir pakkinn stöðu stórra, einkum bandarískra, tæknifyrirtækja og milljarðamæringa sem eru eigendur þeirra. Stéttarfélög og launafólk bera þannig kostnaðinn af stefnu sem sett er fram í nafni nýsköpunar.
Heimild: Social Europe