Fara á efnissvæði
Aftur í fréttayfirlit

LÍV til liðs við EFT

LÍV gengur til liðs við EFT

Landssamband íslenskra verslunarmanna varð í dag formlega aðili að European Transport Workers Federation (ETF) sem eru samtök stéttarfélaga starfsfólks í flutningum innan ESB, EES og landa í Mið- og Austur-Evrópu. Með þessari aðild styrkja aðildarfélög LÍV samstarf sitt við systursambönd sín á Norðurlöndunum og í Evrópu og efla þannig hagsmunagæslu sína fyrir hönd félagsfólks LÍV sem starfar í ferðaþjónustu. Þessi aukna áhersla endurspeglar þann vöxt sem orðið hefur í íslenskri ferðaþjónustu sem aftur kallar á að allt launafólk sem starfar í ferðaþjónustu njóti þjónustu öflugra stéttarfélaga í baráttu sinni fyrir góðum störfum og lífskjörum.

VR, sem stærsta aðildarfélag LÍV, leggur á það mikla áherslu að launafólk í ferðaþjónustu eigi sér öfluga talsmenn enda eru stærstu ferðaþjónustufyrirtæki landsins á félagssvæði VR og ferðaþjónusta að vaxa og dafna um allt land.

„Starfsfólk í ferðaþjónustu hefur þau sjálfsögðu réttindi að vera í stéttarfélögum og berjast í krafti samstöðunnar fyrir kröfum sínum um réttlæti og mannsæmandi lífskjör. Við höfum því miður orðið þess vör að aðilar í ferðaþjónustu brjóti á umsömdum réttindum launafólks og harkaleg viðbrögð við hófsömum kröfum starfsfólks við flugafgreiðslu urðu til þess að við ákváðum að efla okkur í réttindabaráttu í ferðaþjónustu og leita frekara samstarfs bæði hér á landi og erlendis,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður LÍV og VR.

„Alþjóðlegt samstarf LÍV við verslunarfélög á Norðurlöndunum í NHK og aðild okkar að UNI Global Union hefur gefist vel og nú þegar aukinn fjöldi félaga okkar starfar í ferðaþjónustu viljum styrkja okkur á því sviði. Við finnum að félagsfólk sem starfar í ferðaþjónustu hefur mikinn áhuga á því að njóta krafta félaga í LÍV í baráttu sinni. Við vinnum í góðu samstarfi stéttarfélaga innan LÍV til þess að tryggja réttindi launafólks og að farið sé eftir gildandi kjarasamningum. LÍV telur að besta leiðin til þess að tryggja rétt þess fólks sem starfar við ferðaþjónustu og flutninga sé að leita eftir samstarfi, stuðningi og þekkingu í starfi okkar fyrir hönd félagsfólks til samtaka launafólks á Norðurlöndunum og Evrópu.“

Um LÍV

LÍV, sem stofnað var 2. júní 1957, er fjölmennasta sambandið innan ASÍ og í því eru 10 verslunarmannafélög og deildir verslunarmanna víðsvegar á landinu með ríflega 40 þúsund félaga. Tilgangur LÍV er að efla samtök skrifstofu- og verslunarfólks, vera málsvari þeirra og hafa á hendi forystu í hagsmunamálum félagsfólks. 

Um ETF

ETF var stofnað á stofnþingi í Brussel 14.-15. júní 1999, sem byggði þá á 60 ára sögu stéttarfélaga í flutningum. Í dag er ETF málssvari yfir 5 milljóna launafólks í meira en 200 stéttarfélögum í 38 Evrópulöndum. Þetta launafólk starfar í öllum greinum flutninga, á landi, sjó og í lofti. Þau starfa í eftirfarandi starfsgreinum:

Flug
Fiskveiðar
Innri farvegur
Vöruflutningar
Sjóflutningar
Hafnir og bryggjur
Járnbrautir
Vörubílaflutningar
Ferðaþjónusta
Almenningssamgöngur í þéttbýli


https://www.etf-europe.org/