Hver borgar fyrir heimsendinguna?
07. janúar 2026Tækni réttlætir ekki afturför
Karen Ósk Nielsen Björnsdóttir skrifar grein um heimsendingarþjónustu sem birtist í Vinnunni rétt fyrir jól, en það fór væntanlega ekki framhjá neinum sem horfði á áramótaskaup RÚV hvað er að gerast á íslenskum vinnumarkaði.
Heimsendingaþjónusta hefur aukist verulega á undanförnum árum og er nú orðin fastur hluti af rekstri margra verslana. Samhliða þeirri þróun hafa stafrænir vettvangar á borð við Wolt komið til sögunar sem milliliðir í dreifingu vöru. Þessi breyting hefur áhrif á verslunina sjálfa og ekki síst á starfsfólk hennar.
Athygli LÍV beinist að því hvernig þessi þróun mótar starfsskilyrði í verslun og tengdum störfum. Þótt stafrænir vettvangar einfaldi aðgengi neytenda að vöru, byggir starfsemin að stórum hluta á sendlastörfum sem oft eru skipulögð sem verktakavinna, utan hefðbundins vinnumarkaðskerfis. Þar er starfsfólk svipt grundvallarréttindum sem launafólk í verslun nýtur samkvæmt kjarasamningum, svo sem tryggum vinnutíma, launum, orlofsréttindum og vernd gegn tekjusveiflum.
Útreikningar sýna að þegar allur kostnaður sendla er tekinn með í myndina geta raunverulegar tekjur orðið langt undir lágmarkslaunum á almennum vinnumarkaði. Slík þróun skapar hættu á undirboðum og skekkir samkeppnisstöðu verslana sem starfa samkvæmt kjarasamningum og taka ábyrgð velferð starfsfólks.
LÍV leggur áherslu á að tækniframfarir og nýjar dreifileiðir megi ekki leiða til afturfarar í kjörum og réttindum. Starfsfólk í verslunum og tengdum þjónustugreinum á rétt á sanngjörnum launum og skýrum starfsskilyrðum, óháð því hvaða tækni eða viðskiptamódel er notað. Heimsendingaþjónusta þarf að þróast í takt við íslenskan vinnumarkað, ekki á kostnað þeirra sem sinna störfunum.
Heimild: Vinnan