Gervigreind og réttindi launafólks
14. ágúst 2025Gervigreind og réttindi starfsfólks: Kjarasamningar skipta sköpum
Oliver Roethig, formaður UNI Europa, heildarsamtaka launafólks í þjónustugreinum í Evrópu skrifar um gervigreind í nýlegri grein. Á meðan Evrópusambandið fjárfestir milljörðum evra í innviðum fyrir gervigreind, gleymist eitt lykilatriði í umræðunni: samráð og kjarasamningar. Þau eru forsenda þess að gervigreind þjóni almannahagsmunum, samræmist evrópskum gildum og tryggi réttindi starfsfólks.
Gervigreind er nú þegar að breyta vinnunni okkar
Gervigreindarverkfæri eru nú þegar í notkun í ráðningum, vaktaplönum, afkastamælingum og jafnvel við uppsagnir. Í skapandi greinum byggja forrit á gögnum frá listafólki – án samþykkis og án greiðslu.
Þróunin er hröð – og löggjöfin nær ekki að fylgja eftir. Til dæmis verður Gervigreindarlöggjöf ESB (AI Act) ekki að fullu komin til framkvæmda fyrr en árið 2027.
Kjarasamningar veita raunverulega vernd – strax
Á meðan stjórnvöld vinna að löggjöf hafa kjarasamningar þegar skilað árangri:
-
Þýskir leikarar sömdu um gagnsæi, samþykki og greiðslur vegna notkunar á gervigreind.
-
Starfsmannaráð Deutsche Telekom tók þátt í gerð gervigreindarstefnu fyrirtækisins.
-
Á Ítalíu var samið um notkun AI-verkfærisins Agent Assist í þjónustuverum.
Starfsfólk á að fá að hafa rödd áður en ný tækni er tekin í notkun
Gervigreindar verkfæri eru oft tæknilega flókin og keypt án nægilegs innsæis í afleiðingar notkunar þeirra. Þess vegna er þátttaka starfsfólks nauðsynleg frá upphafi – ekki eftir á.
Samráð kemur í veg fyrir að keypt sé dýr og ónauðsynleg tækni sem getur jafnvel skaðað starfsemi fyrirtækis. Með kjarasamningum má tryggja að tækni styðji við fólk í stað þess að ýta því út.
Okkar krafa er skýr:
- Gervigreindar-réttindi starfsfólks þurfa að verða hluti af kjarasamningum
- Samráð verður að fara fram áður en ný tækni er tekin í notkun
- Opinber útgjöld og útboð skulu styðja fyrirtæki sem virða samningsbundin réttindi
- Ósanngjörn samkeppni með óverndað gagnavinnuafl verður að stöðva
Við skulum gera gervigreindina raunverulega evrópska
Evrópa hefur ávallt sameinað nýsköpun og félagslegt réttlæti. Ef við ætlum að vera leiðandi í þróun gervigreindar, verðum við að tryggja að ákvarðanir um starfsfólk séu ekki teknar án starfsfólks.
Við getum ekki látið forrit stýra vinnunni án þess að rödd launafólks heyrist.
Við hvetjum til að félagsfólk, fyrirtæki og stjórnvöld taki höndum saman um skýra framtíðarsýn – þar sem tækniframfarir og réttindi ganga hönd í hönd.
Landssamband íslenskra verslunarmanna er aðili að UNI Europa.