Endurheimt lýðræðis
08. maí 2025Á tímamótum örlagaríkrar ákvörðunar
Um allan heim standa milljarðar launafólks frammi fyrir tímamótum í sögulegum skilningi. Spurningin er einföld en gríðarlega mikilvæg: Mun framtíðin mótast af lýðræði og samstöðu – eða verða undirgefin harðstjórn og hagsmunum auðmanna?
Margir upplifa andrúmsloft dagsins í dag sem óhugnanlega kunnuglegt. Ójöfnuður eykst. Lýðræðislegar stofnanir eiga undir högg að sækja. Loftslagsváin vofir yfir. Öflug bandalög tæknirisa, öfgahægrimanna og stórfyrirtækja vinna markvisst að því að hagnýta veikleika kerfisins til að festa í sessi framtíðarsýn sem byggir á útilokun, sundrungu og arðráni.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem launafólk er kallað til varnar lýðræðinu gegn myrkri öflum. Saga okkar er bæði viðvörun og innblástur.
8. maí 1945: Krafturinn í samstöðu
Fyrir áttatíu árum, þann 8. maí 1945, fögnuðu verkalýðshreyfingar og baráttufólk í herjum og andspyrnuhreyfingum um alla Evrópu sigri yfir fasismanum. Þennan dag lauk síðari heimsstyrjöldinni í Evrópu – stríði sem nokkrir valdamiklir menn hófu knúnir áfram af græðgi, hatri og valdafíkn. Eyðileggingin sem þeir skildu eftir varð kveikjan að nýjum alþjóðlegum veruleika.
Úr rústum heimsstyrjaldarinnar reis alþjóðasamfélagið til nýrrar tilveru: Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar, Alþjóðavinnumálastofnunin endurnýjuð, Alþjóðadómstóllinn settur á laggirnar og nýtt alþjóðlegt efnahagskerfi mótað. Þessar stofnanir voru djörf tilraun – þó ekki gallalaus – til að tryggja frið, samvinnu og jöfnuð í efnahagsmálum.
Þetta var einstakur tímapunktur þar sem vonin hafði betur en óttinn – og launafólk átti þar lykilhlutverk.
2025: Ný áskorun
Nú, árið 2025, stöndum við aftur á tímamótum. Hættan hefur tekið á sig nýja mynd, en eðli hennar er það sama: Fámenn valdaklíka reynir að ræna framtíðinni í þágu eigin gróða og valda. Nútíma harðstjórn klæðist ekki einkennisbúningi né gengur undir fána – hún starfar í stjórnarherbergjum, með algorithmum og áróðri.
Auðstéttin ræðst gegn lýðræðinu á lúmskan en stórhættulegan hátt – eyðir trausti, breytir lögum, þaggar niður í andófsröddum. Fyrir launafólk um allan heim er þetta kunnuglegur harmleikur: skert réttindi, niðurskurður á þjónustu, vaxandi ójöfnuður og samfélög sem leysast upp.
Já, það er til önnur leið!
En alþjóðleg verkalýðshreyfing lætur þetta ekki yfir sig ganga. Stéttarfélög eru hjartað í lýðræðinu – og við rísum upp.
Við höfnum því að sagan endurtaki sig. Við trúum á sameiginlegar aðgerðir, á samtakamátt sem nær út fyrir einstaka vinnustaði og landamæri. Við trúum því að nýr samfélagssáttmáli sé ekki aðeins nauðsynlegur – hann sé mögulegur.
1. maí létu milljónir launafólks um heim allan í ljós kröfur sínar. Og nú, 8. maí, leggur Alþjóðasamband verkalýðsfélaga (ITUC) áherslu á þær kröfur með afgerandi hætti. Með opnu bréfi til þjóðarleiðtoga og alþjóðastofnana kallar ITUC eftir tafarlausum aðgerðum til að verja lýðræðið og tryggja réttláta og sanngjarna framtíð fyrir allt launafólk.
8. maí 2025: Kall um samstöðu
Þessi dagur snýst ekki eingöngu um minningu – heldur um verkefni. Hann minnir okkur á þann mikla mátt sem felst í einingu launafólks – og hvað gerist ef við bregðumst eða töf verður á aðgerðum.
Þegar alþjóðleg verkalýðshreyfing endurvekur sameiginlega baráttu okkar, markar 8. maí 2025 upphaf nýs kafla – ákall um að endurheimta lýðræðið, endurreisa reisn vinnunnar og stöðva valdarán auðmannanna.
Við skulum heiðra fórnir liðinna kynslóða með því að berjast af alefli fyrir framtíð okkar. Því þegar verkafólk sameinast – þá breytist sagan. Og enn á ný – horfir heimurinn til okkar.
Frekari upplýsingar um væntanlegar aðgerðir, opið bréf ITUC og hvernig þú getur stutt baráttuna fyrir nýjum samfélagssáttmála má finna á For Democracy that delivers - International Trade Union Confederation